Saturday, May 23, 2009

Hostelblogg

Eg sit a hosteli herna i Stokkholmi og byd eftir tvi ad klukkan verdi 10. Ta tekka eg mig ut og rolti heim til Daniels sellopassara og pianoleikara, tadan mun eg taka leigubil til Arlanda flugvallar og aetli eg endi ekki einhvern vegin i Reykjavik, kl 15.20 a islenskum!

Takk fyrir mig elsku Finnland!

Thursday, May 14, 2009

Örstutt í morgunsárið :)

Núna er ég að taka mig til fyrir stutta dagsferð til Helsinki. Annars er bara allt að verða klárt fyrir brottför... eða ekki? Ég er ekkert byrjuð að pakka! Eða neitt!!

Nú fer að komast ferðastress í mig. En ég mun redda þessu öllu. Ég er allavega löngu komin með plan. Ég sigli til Stokkhólms, gisti þar á hosteli í tvær nætur og flýg svo heim. Sellóstelpa úr skólanum sem hefur aðsetur í Stokkhólmi passar sellóið og kannski stærstu ferðatöskuna á meðan.

En nú má ég ekki missa af lestinni :)

Bless í bili!

Sunday, May 10, 2009

Tónleikar

Ég bara verð að blogga um þessa frábæru tónleika á föstudaginn. Turku Fílharmónían var að spila verk sem áheyrendur höfðu kosið nokkrum mánuðum fyrr, sem sagt Corolian forleikinn, Elgar sellókonsertinn (híhíhí nema hvað) og auðvitað Síbelíus tvö, sem er UPPÁHALDS sinfónían mín í heiminum... ásamt nokkrum öðrum.

Það var semsagt sjúklega gaman og ég ætlaði bara aldrei að losna við gæsahúðina sem braust út í lokakaflanum hans Síba... vaaááá... þegar hann fer aftur yfir í dúr eftir endalausan stigmagnandi mollkafla... þeir sem vita um hvað ég er að tala eru eflaust sammála :)

Veðrir leikur líka við mig og það gengur rosa vel að spila og ég hlakka bara til að koma heim og ég er komin með vinnu (er samt að fara að vinna allt of mikið! Langar svo í frííí) og það er bara allt frábært!

Niðurtal: 13 dagar!

Koss og kram
Hildur

Tuesday, May 5, 2009

Bráðum bráðum bráðum...

Ég held ég sé með rykofnæmi. Þess vegna hef ég staðið í stórþvotti síðan klukkan hálf níu í morgun, eða síðan ég vaknaði örþreytt eftir hóstandi nótt með stíflað nef og raddlaus. Sussusvei. Annars hafa æfingar gengið vel og núna er ég byrjuð að æfa Paganini, tilbrigði á einum streng :)
Mikil hátíðahöld voru í Finnlandi síðustu helgi, svokölluð Vappu-hátíð. Hún er haldin í tilefni af fyrsta maí, en í stað þess að kvarta undan bágum kjörum fara Finnar a) í lautarferð með vinum eða fjölskyldu eða b) á heljarinnar skrall.
Ég held reyndar að flestir undir þrítugu sameini þetta bæði. Ég fór á skemmtistað á fimmtudeginum og í lautarferð daginn eftir, tók þessu öllu bara mjög rólega.
Íris íslenskunemi bauð mér svo til pabba síns á sunnudag. Þar snæddi ég herramannsmat, hvorki meira sé minna en heimaveidda geddu, sem búið var að laga dýrindis böku úr!
Þessi fiskur er vægast sagt óvinsæll í hinum ýmsu barnasögum (og af veiðimönnum þeim sem sækjast eftir laxi og silungi), líklega vegna þess að geddan er miður fögur og hefur í munni sér tennur afskaplega beittar og skaðlegar.
Annars er nú lítið að frétta annað en það að heldur fer að styttast í að ég komi heim. Sumrinu mun eytt í svolitla vinnu (ef ég skil vinnuveitanda minn rétt!), kammermúsíknámskeið hjá Sibba Bernharðs, ferðalög um landið og rólegheit.
Mitt síðasta ferðalag í bili verður því ferjusigling til Stokkhólms, þar sem ég mun dvelja í tvo daga, dagana áður en ég kem aftur á Frónið. Mikið hlakka ég til að hoppa á nýja trampólíninu okkar!
Og borða ferska ýsu...
Og lamb í ofni...
Og fara í HEITAN POTT!
Og sofa í stóru rúmi...og mjúku...
Og sjá alla sem mér þykir vænt um :)

Tuesday, April 28, 2009

Svefnleysi og vorkoma

Oh... mikið getur verið pirrandi að vera andvaka þegar mann langar ekkert frekar en að vakna eldsnemma og æfa. Af hverju þurfa alltaf að koma tímabil þar sem ég bara GET ekki fest svefn? Þetta er pottþétt eitthvað stress í mér...stress sem stafar af svefnleysi! Jarg, fjárans vítahringur.

Allavega, best að færa einhverjar fregnir af tónlistarlífinu. Tónleikarnir með háskólahljómsveitinni gengu prýðilega. Það er svolítið gott fyrir sjálfsálitið (sem mann gjarnan skortir) að geta fengið hljómsveitarparta þremur dögum fyrir tónleika, eina sinfóníu, einn konsert, eitt miniature verk og einn nútímaforleik, og samt spilað bara slatti vel. Og grætt 150 evrur ;)

Í kvöld er svo komið að Aboa Nova (latína og það þýðir Nýtt Åbo/Turku) og mun strengjasveitin þá flytja Stele III eftir S. Bhagwati undir hans eigin stjórn. Mér er farið að finnast fyrrnefnt verk ótrúlega skemmtilegt! Maður má eiginlega bara ráða hvað maður spilar, svo lengi sem það sé góð eftirlíking af laufi, fuglakvaki, hvalahljóðum (ekki þó kvalahljóðum!) og þess háttar. Algjör snilld.

Nú á ég ekki nema þrjár kennslustundir eftir með Erkki. Að hans mati hefur mér farið mikið fram, sérstaklega hægrihandarmegin. Ég mun láta aðra dæma um það þegar ég kem heim.

Það eina sem ég kvíði fyrir í dag er meðleikstíminn... því ég gat engan vegið farið á lappir nógu snemma og neyðist því til að mæta illa upphituð.... Oh það er svo leiðinlegt! Vona að Haydn verði góður við mig :)

Sé ykkur eftir 3 vikur og 4 daga!!

Wednesday, April 22, 2009

Páskar, gigg, heimkoma og fleira spennandi

Kæru lesendur (ef einhverjir eru)

Um páskana heimsótti ég sænska þorpið Ekenäs eða Tammisaari á finnsku. Iiris íslenskunemi var svo indæl að bjóða mér til mömmu sinnar og stjúpa á páskadag og þar gistum við fram á mánudag. Þessi fjölskylda er í alla staði indæl, þau gáfu mér frábæran finnskan veislumat, t.a.m. mämmi, sem er rúgur og sýróp blandað saman og borðað með rjóma.... hömm.... Einnig fórum við að kastala í nágrenninu sem var mjög heillegur og gaman að skoða. Þess má geta að dýralífið þessa páska var með eindæmum skrautlegt! Ég sá íkorna, ELG (það er sko EKKI algeng sjón) og ref á tveimur dögum. Svona geta finnskir skógar verið skemmtilegir.

Ég hef fengið tvö störf hér í Turku. Það fyrsta hefur þegar verið afgreitt, það var að leika á selló við opnunarhátíð verslunarmiðstöðvar. Ekki það skemmtilegasta sem ég hef gert...en maður segir ekki nei við evrum! Næsta starf, sem mér bauðst reyndar bara í dag, er mun áhugaverðara. Ég var beðin að leika með sinfóníuhljómsveit háskólans í Turku, sem er ekki skólinn minn, svo þeir verða að borga mér. Og það ætla þeir að gera ríflega ;)

Og prógrammið er í léttara kantinum og mjög skemmtilegt. M.a. Beethoven fyrsta, sem ég þekki mjög vel, og auðvitað svolítill Sibelius!

Þessa vikuna er annars nútímatónlistarhátíð og strengjasveitin er að spila eitt allra furðulegasta verk sem ég hef augum litið... ég tek kannski myndir af ''nótunum'' og set á bloggið, ef það stríðir ekki gegn höfundarrétti...

Allavega, nóg í bili! Kem heim 23. maí 2009!!

Sunday, April 12, 2009

Gleðilega páska









Í dag fer í í heimsókn til fjölskyldu íslenskunemans mín í Tammisaari, sem er lítill bær nálægt Helsinki.
Núna fáið þið að sjá myndir frá Lettlandi, þangað sem ég fór með 8 öðrum skiptinemum frá hinum ýmsu löndum. Njótið:

Þetta er myndir frá gamla bænum í Riga. Hann er yndislegur! Skýjakljúfurinn er hótel á 26 hæðum, þangað sem við fórum á bar, sem var staðsettur á efstu hæð!

Monday, March 23, 2009

Endalaus vetur!




Það er endalaus fjárans vetur hér sem er við það að gera mig sturlaða!

Það snjóar í augnablikinu...

Jæja, það þýðir víst lítið að pirra sig á því. Í dag fór ég í skólann og æfði mig og núna er ég að basla við að setja saman fyrirlestur um Ísland til að flytja á alþjóðlegum degi 1. apríl. Samt alveg bannað að plata! Annars væri nú skemmtilegt að segja að hagvöxtur Íslands sé 58% og að atvinnuleysi sé undir 1%. En maður verður víst að vera hreinskilinn. Ég ætla reyndar bara að tala um náttúrufegurð, þá þarf ég ekkert að plata.

Það var gaman í Dublin, en mig langar svo að setja inn fleiri Lapplandsmyndir svo ég sleppi því að setja inn Dublinar-myndir því það hafa svo margir verið þar áður. Næst á dagskrá er að skreppa í hópferð til Riga með 7 erlendum nemum frá Tékklandi, Nepal, Tyrklandi o.fl. Við förum 4. apríl og komum 6. aprlíl heim. Munur að hafa RyanAir í nágrenninu! Þá skiptir engu þó það sé örlítil kreppa :)

Thursday, March 12, 2009

LAPPLAND






Já fyrirgefðu mamma mín hvað ég slóra mikið :)

Hér kemur færslan um Lapplandsferðina miklu: 31. mars til 8. feb dvaldi ég í Levi í Lapplandi ásamt 44 öðrum skiptinemum og 6 fararstjórum. Við gistum í nokkrum smáhýsum, ég var í litlu húsi með 5 öðrum stúlkum. Fyrsti dagurinn fór aðallega í að keyra þangað en einnin gáfum við okkur tíma til að heimsækja jólasveininn. Annan daginn fór ég á gönguskíði, mér til mikils erfiðis. Það var samt gaman. Hvert einasta kvöld var svo eitthvað um að vera í stærsta bústaðnum. Þriðjudagurinn var notaður til að jafna mig af hrikalegustu harðsperrum sem ég hef nokkru sinni haft og svo skrapp ég í spa, sem var heldur kostnaðarsamt miðað við hvað nuddpotturinn var kaldur. Á miðvikudaginn fór ég í gönguferð á snjóþrúgum, það var ótrúlega gaman! Seinni partinn ók ég svo snjósleða með félaga minn James sem farþega. Það var ekki síður skemmtilegt. Á fimmtudeginum var farið á hundasleða og svo í sauna og vök. Þá fer maður ofan í vök á stöðuvatni og svo inn í saunu. Afar spes upplifun. Föstudagurinn var svo notaður til að aka heim og ég komst heim kl 4 um nóttina.

Takk fyrir mig Lappland!

Á morgun ætla ég að halda áfram að ferðast, Dublin....here I come!

Thursday, February 26, 2009

Þreyta

Þessi vika hefur verið algjört maraþon. Á mánudaginn sótti ég tíma hjá skoska sellóleikaranum Robert Irving. Hann er afskaplega ólíkur öðrum kennurum sem ég hef hitt. Hann er algjör rokkari, minnir eiginlega á Mick Jagger, fyrir utan sellóið!

Hann talaði næstum ekki neitt um tækni, sem var eiginlega ágætt, því ég hef hugsað óendanlega mikið um tæknileg málefni síðustu vikur. Hann talaði um ímyndunarafl og tilfinningar í tónlist og svo talaði hann mikið um upprunalegan stíl í Bach, sem er mjög nýtt fyrir mér.

Á þriðjudag hitti ég meðleikarann minn og Errki. Í skólanum mínum erum við þrjú saman í tíma en í þetta sinn var ég sú eina sem hafði eitthvað að spila svo ég fékk klukkustund með Errki og Mikael, píanóleikaranum.

Í gær hitti ég Irving aftur svo að ég fékk einkatíma þrjá daga í röð. Það hljómar kannski ekki mikið, en trúið mér, ég var uppgefin í gær! Á mjög þægilegan hátt samt því allar kennslustundirnar gengu vel.

Ég hlakka mikið til að fara til Lapplands, við leggjum af stað kl 20 á laugardagskvöldi, eigum að sofa í rútunni og vakna morguninn eftir í Rovaniemi. Ég veit nú ekki alveg hversu mikið maður mun sofa... en ég verð að reyna. Á dagskrá ferðarinnar er sjósauna (þá fer maður í gegnum vök ofan í sjóinn og svo í sauna!), hundasleði, vélsleði og eitthvað af partýum eins og búast mátti við :)

Moi moi

Hildur

Sunday, February 22, 2009

Vetrarfríinu lokið

Já í dag kláraðist vetrarfríið.

Ég var nú ekkert allt of dugleg. Eins gott að ég bæti það upp í vikunni! Ég geri þetta stundum...slugsa oggulítið og æfi svo eins og brjálæðingur til að vinna upp samviskubitið. Hef alltaf verið tarnamanneskja. Svona er þetta þegar allir vilja alltaf vera að halda teiti!

Ekki það að ég hafi ekki gert neitt af viti. En nú skal í lófana spýtt! Þessa helgi hýstum við ungan Þjóðverja sem, þrátt fyrir að hafa aðeins búið í eitt ár á Íslandi, talar afskaplega vel hið ástkæra ylhýra. Það var algjör snilld að hitta íslenskumælandi mann, því hér er a.m.k. tvennt af öllu nema Íslendingum, ég er sem sagt bara ein. Og eins og alltaf þá nota menn gjarnan móðurmálið við landa sína (t.a.m. frönsku, tékknesku, spænsku, rússnesku o.sv.fr.) og við það einangrast ég af og til.
En maður er nú með sterkan skráp! Ég er ekki víkingur fyrir ekki neitt :)

Framundan er vikuferð til Lapplands, sem verður notuð til að ganga á skíðum og taka myndir. Þess vegna þyrfti ég helst að æfa 9 tíma á dag þessa vikuna...

En ég get það nú varla! En reyni mitt besta...

Þar til næst

Saturday, February 14, 2009

Æfingar

Það er sem sagt ekkert sérlega merkilegt að frétta nema að ég eignast sífellt fleiri vini hérna í Kuunsilta (fyrir þá sem ekki vita þá er það háskólagarður í úthverfi Turku þar sem nemum af erlendum uppruna er hrúgað saman, þeim yfirleitt til mikillar ánægju!!).

Ég er byrjuð í vetrarfríi sem stendur yfir í eina viku og verður notað aðallega til æfinga en einnig til að blanda geði, en ekki til að renna sér á skíðum eins og gert er ráð fyrir. Þetta er nefninlega skíðafríið!

Skólinn minn, Turun Ammatikorkeakoulu, á reyndar von á merkum gesti núna strax eftir vetrafrí. Hann heitir Robert Irving og er sellóleikari frá Glasgow. Ég á að mæta í tíma til hans og spila eitthvað fallegt og skemmtilegt. Þá er bara að krossleggja fingur og vona að hann sé ekki einn þeirra sem lagði ævisparnaðinn og skírnarpeninga barna sinna inn á IceSave reikning :)

Svo verð ég að spýta í lófana og halda áfram að æfa mig í að telja á finnsku.

Þar til næst....
Hildur

Thursday, February 5, 2009

Grámygla

Í dag er svolítið grámyglulegur dagur. Ég fer ekki í tíma til Erkki eins og stóð til heldur hitti ég hann á laugardaginn í staðinn. Þess vegna er eiginlega laugardagur í dag, en ekki fimmtudagur. Ég leyfði mér því að sofa dálítið frameftir og núna sit ég með sveittan skalla og læri finnskar raðtölur. Sellóið verður að bíða þar til í kvöld, því að ef maður mætir til æfinga síðar en klukan hálf tíu þá er alls óvíst að það séu einhverjar stofur lausar. Alveg eins og í Tónó í gamla daga! Þar að auki æfi ég mig lang best og mest byrji ég klukkan hálf níu. Eða ef ég byrja klukkan hálf átta á kvöldin. Ég er allavega ekki miðdegistýpa!

En finnskan tekur líka sinn tíma. Svo verð ég víst líka að búa til námsefni fyrir verðandi íslenskunema. Já, ég get ekki á mér setið, ég verð að kenna eitthvað sama hvar ég er :)
Svo er mál með vexti að ég hef tekið undir minn verndarvæng unga konu sem ætlar að koma sem skiptinemi til Íslands og hana langar að kunna undirstöðuatriðin áður en hún heldur utan. Eftir allt sem finnar hafa gert fyrir mig (og það er slatti, þó að sumt hafi tekið ansi langan tíma!) þá finnst mér sjálfsagt að hjálpa þeim á móti.

En einn tveir og þrír!

Finnska!

Saknikoss, Híbí

Saturday, January 31, 2009

Loksins nýtt blogg!

Já það er aldeilis kominn tími á nýtt blogg :)

Ég fór í dag á minn fyrsta íshokkíleik, þar sem Turku atti kappi við Tampere. Íshokkí er ákaflega ofbeldisfullur leikur, t.a.m. þurfti að stía sundur leikmönnum alls fimm sinnum í þessum leik. Og þeir slást í fullri alvöru, þrátt fyrir að þeir séu reknir út af í 2 mínútur fyrir þá sök. Stemmningin var rosaleg! Öskur og hávaði eins og vera ber (samt ekki hún Veera vinkona mín!) en því miður tapaði Turku fyrir Tampere :(

Fyrr um daginn fór ég og fjárfesti í skáldsögu á sænsku og fékk mé einnig ókeypis bókasafnskort, en bókasafnið hér í Turku er það besta sem ég hef nokkurn tíma séð. Nótna -og geisladiskadeildin er yfirnáttúrulega stór!

Í gær var svo partý... nema hvað! Það er aftur orðið ógeðslega kalt, enda var sólskin og blíða í dag. Það býður alltaf upp á nístingsfrost á kvöldin. Ótrúlegt að janúar byrji á morgun!

Koss og knús,
Híbí

Friday, January 23, 2009

Loksins komin með netið heim!

Jæja, þá er loksins hægt að netast almennilega. Ég fékk netið rétt áðan og ég er alveg alsæl með það. Annars er nú ekki mikið að frétta nema að ég fjárfesti í stafrænni myndavél á dögunum. Það er svo ótrúlega fallegt hérna í nágrenninu að ég gat ekki á mér setið að kaupa vél til að festa dýrðina á filmu.

Núna eru ljósaskipti og það er þykkur jólasnjór yfir öllu. Ég á alveg hreint frábæra nágranna, einn þeirra, Dima frá Rússlandi, vill endilega gera mig að metalhaus og lét mig nýverið hafa myndlykil með 3 klst af þungarokki. Honum fannst óhæfa að Íslendingur á borð við mig hefði aldrei hlustað á Viking Metal, sem er þungarokk sem fjallar um æsina og jötnana og það lið.

Talandi um Ísland, hér í skiptinemafjöldanum þykir ákaflega merkilegt að vera Íslendingur og allir sína þjóðerni mínu afar mikinn áhuga. Ófáir vita eitthvað um kreppuna og spyrja með áhyggjusvip hvernig allt gangi. Ég fullvissa þau að sjálfsögðu að allt sé á réttri leið en allir ættu engilega að heimsækja landið og kaupa föt og íslenska hönnun og skella sér í veiði! Hér eru afar fáir sem ná því hvað ég heiti í fyrstu atrennu, ekki einu sinni Finnar geta sagt þetta rétt! Ég veit ekki hvort þetta er uppgerð, fólk verður gjarnar kindarlegt þegar ég segi að þetta sé bara Hilda á íslensku!

Ég er byrjuð á finnskunámskeiði og það gengur bara vel. Ennþá! Þetta er fyndnasta mál í heimi. T.a.m. er hér bar sem heitir Bar Kuka.

Læt það duga að sinni.

Hildur
Ps. Já Halla. Moi þýðir hæ en moi moi þýðir bless :)

Sunday, January 18, 2009

Kuldi

Það er búið að vera alveg hrikalegur kuldi hérna síðustu tvo eða þrjá dagana. Allt að 12 eða 13 stiga frost...brr...ég fæ alveg naglakul af því að sjá Finnanna húka úti vettlingalausa að reykja! Gott að vera ó-reykingamaður núna :)

En núna er tiltölulega hlýtt og það snjóar smávegis.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Turku jólaborg Finnlands og þeir eru ekkert að flýta sér að taka niður jólaskrautið. Þeir halda því líka fram að jólasveinninn sjálfur búi í Finnlandi, en ég verð nú að leiðrétta þann leiða misskilning ;)

Í gær var húsmæðradagur hjá okkur stelpunum í Ritzinkuja 1 U. Við settum í þvottavél, keyprum inn og þrifum. Og dagurinn endaði svo á skemmtistað í miðbænum. Það var mjög gaman. Ég eldaði mér kjúklingarétt, enda orðin hundleið á pasta!

En ég er bara að æfa alveg á fullu til að verða betri sellisti!

Moi moi (bless bless)

Tuesday, January 13, 2009

Þráðlaust net í skólanum

Hægt og hægt þokast tölvumálin mín í átt að nútímanum :)
Nú get ég skráð tölvuna mína inn á þráðlaust net í skólanum! Gaman gaman. Það eru ennþá örugglega tvær vikur í að ég geti notað netið heima. En það líður hratt því nú hef ég eiginlega allt annað. Strætókort, símanúmer, lykla að skólanum og hljóðfærageymslunni og net...þ.e.a.s þegar ég er a) á bókasafninu eða b) við hliðina á bókasafninu. Annars er bara allt gott að frétta og nú fer allt að fara í gang. Ég er að spá í að fara á finnskunámskeið sem hefst eftir viku. Finnska fyrir byrjendur. Ég geri mér að vísu ekki vonir um að læra málið á einu námskeiði, en það er alltaf gaman að fara í eitthvað sem allir eru jafn lélegir í :)

En bless í bili!

Ps. Ernir, ef þú lest þetta, ég hef öðlast frægð hér fyrir að vera vinkona þín!

Saturday, January 10, 2009

Nyjungar

Jaha.

Eg er ekki enn komin me adgang ad netinu heima hja mer en medlegjand minn er indael og lanar mer sina tolvu nuna svo eg geti bloggad :)

Eg e buin ad setj ymislegt inn i herbergid mitt svo ad nuna ertad bara nokkud notalegt! Eg fek mer keri og kertastjaka og gerfiblom sem eg setti i gamla sojasosuflosku. Og svo keypti eg bleikar diskaottur sem fara bara prydisvel a bokahillunni minni...sem er hvit eins og allt annad i thessari ibud!

Eitt kom mer skemmtilega a ovart. Inni a badi var litill sturtuhaus tengdur vid vaskinn og fyrsta kvoldid her spurdi eg hjalparkokkinn Sakari til hvers i oskopunum vaeri sturta a klosettherberginu (thvi thad er ser herbergi fyrir sturtu og ser herbergi fyrir klosett). Hann syndi mer med mjog leikraenum tilthrifum ad thetta noti menn til ad skola rassinn!!

Eg missti andlitid thvi eg helt ad thetta vaeri adeins vid lydi i Indlandi. Ena tessu heimili nota allir salernispappir, sem eg keypti i miklu snarhasti :)

Eg skodadi domkirkjuna her i Turku i dag og hun er alveg mognud. Og i fyrramalid er maeting snemma i skolann til ad aefa!!

Bless thar til naest :)

Friday, January 9, 2009

Komin til Finnlands

Jaeja.
Ta er eg komin til Finnlands. Eg bidst afsökunar a tessum skorti a islenskum stofum en eg er a bokasafninu i skolanum. Thad er ekki komin internet i ibudina mina. Eg saeki um thad a eftir og thad tekur tvaer vikur!!! Eg fer lika i bankann a eftir til ad opna reikning. Og getidi bara hvad... thad tekur tvaer vikur lika!!! Eg helt ad eg vaeri ad fara til Finnlands en ekki Thyskalands...

Mjög pirrandi sem sagt. Annars gekk allt eins og i sögu ad komast hingad, flugin gengu vel og öll plön stodust.

Ibudin er ekkert allt of hlyleg en thad er liklega astaeda fyrir tvi ad leigan er lag. Nu er eg bara ad reyna ad kyngja heimthranni og vera rosalega dugleg ad horfa i kringum mig og laera a allt.

Eg fae liklega fljotlega adgang ad thradlausu neti i skolanum svo eg aetti ad geta sent post og bloggad med islenskum stöfum eftir helgi.

Rosa saknadarkvedjur,

Hildur

Sunday, January 4, 2009

Fyrsta bloggið!

Kæru lesendur!

Nú er farið að styttast í óumflýjanlegan flóttta minn frá Íslandi. Ég held héðan af landi brott eldsnemma á fimmtudagsmorgun og verð vonandi komin til Turku ásamt mínu elskaða sellói seinna um daginn. Þetta hefur haft langan aðdraganda og var ákveðið löngu fyrir kreppu! Sko LÖNGU! En þetta verður auðvitað rosalegt stuð, þó að ég muni sakna allra sem heima sitja! Á þessu bloggi verpur svo hægt að fylgjast með uppákomum í lífi mínu og lina söknuðinn :)

Á morgun, mánudag, verð ég stödd á Oliver í Reykjavík milli kl 20 og 21. Þangað getur fólk komið ef það hefur áhuga á að faðma mig bless!

Híbí