Tuesday, May 5, 2009

Bráðum bráðum bráðum...

Ég held ég sé með rykofnæmi. Þess vegna hef ég staðið í stórþvotti síðan klukkan hálf níu í morgun, eða síðan ég vaknaði örþreytt eftir hóstandi nótt með stíflað nef og raddlaus. Sussusvei. Annars hafa æfingar gengið vel og núna er ég byrjuð að æfa Paganini, tilbrigði á einum streng :)
Mikil hátíðahöld voru í Finnlandi síðustu helgi, svokölluð Vappu-hátíð. Hún er haldin í tilefni af fyrsta maí, en í stað þess að kvarta undan bágum kjörum fara Finnar a) í lautarferð með vinum eða fjölskyldu eða b) á heljarinnar skrall.
Ég held reyndar að flestir undir þrítugu sameini þetta bæði. Ég fór á skemmtistað á fimmtudeginum og í lautarferð daginn eftir, tók þessu öllu bara mjög rólega.
Íris íslenskunemi bauð mér svo til pabba síns á sunnudag. Þar snæddi ég herramannsmat, hvorki meira sé minna en heimaveidda geddu, sem búið var að laga dýrindis böku úr!
Þessi fiskur er vægast sagt óvinsæll í hinum ýmsu barnasögum (og af veiðimönnum þeim sem sækjast eftir laxi og silungi), líklega vegna þess að geddan er miður fögur og hefur í munni sér tennur afskaplega beittar og skaðlegar.
Annars er nú lítið að frétta annað en það að heldur fer að styttast í að ég komi heim. Sumrinu mun eytt í svolitla vinnu (ef ég skil vinnuveitanda minn rétt!), kammermúsíknámskeið hjá Sibba Bernharðs, ferðalög um landið og rólegheit.
Mitt síðasta ferðalag í bili verður því ferjusigling til Stokkhólms, þar sem ég mun dvelja í tvo daga, dagana áður en ég kem aftur á Frónið. Mikið hlakka ég til að hoppa á nýja trampólíninu okkar!
Og borða ferska ýsu...
Og lamb í ofni...
Og fara í HEITAN POTT!
Og sofa í stóru rúmi...og mjúku...
Og sjá alla sem mér þykir vænt um :)

3 comments:

  1. Ooh ég hlakka líka alveg svakalega að komast heim á Frónið! Fjölskyldan, FERSK ýsa, lambakjöt, heitir pottar og sumarnætur. Þetta er það eina sem ég hugsa um, haha!

    -Ásta

    ReplyDelete
  2. mig langar svo mikið í heitan pott!
    og kaffi á kaffitári.

    ReplyDelete
  3. Ég hlakka til að fá þig! Að hoppa með mér og margt fleira svo kemur nýja Harry Potter í sumar og við getum farið á hann!! Sjáumst, Hlalla

    ReplyDelete