Monday, March 23, 2009

Endalaus vetur!




Það er endalaus fjárans vetur hér sem er við það að gera mig sturlaða!

Það snjóar í augnablikinu...

Jæja, það þýðir víst lítið að pirra sig á því. Í dag fór ég í skólann og æfði mig og núna er ég að basla við að setja saman fyrirlestur um Ísland til að flytja á alþjóðlegum degi 1. apríl. Samt alveg bannað að plata! Annars væri nú skemmtilegt að segja að hagvöxtur Íslands sé 58% og að atvinnuleysi sé undir 1%. En maður verður víst að vera hreinskilinn. Ég ætla reyndar bara að tala um náttúrufegurð, þá þarf ég ekkert að plata.

Það var gaman í Dublin, en mig langar svo að setja inn fleiri Lapplandsmyndir svo ég sleppi því að setja inn Dublinar-myndir því það hafa svo margir verið þar áður. Næst á dagskrá er að skreppa í hópferð til Riga með 7 erlendum nemum frá Tékklandi, Nepal, Tyrklandi o.fl. Við förum 4. apríl og komum 6. aprlíl heim. Munur að hafa RyanAir í nágrenninu! Þá skiptir engu þó það sé örlítil kreppa :)

Thursday, March 12, 2009

LAPPLAND






Já fyrirgefðu mamma mín hvað ég slóra mikið :)

Hér kemur færslan um Lapplandsferðina miklu: 31. mars til 8. feb dvaldi ég í Levi í Lapplandi ásamt 44 öðrum skiptinemum og 6 fararstjórum. Við gistum í nokkrum smáhýsum, ég var í litlu húsi með 5 öðrum stúlkum. Fyrsti dagurinn fór aðallega í að keyra þangað en einnin gáfum við okkur tíma til að heimsækja jólasveininn. Annan daginn fór ég á gönguskíði, mér til mikils erfiðis. Það var samt gaman. Hvert einasta kvöld var svo eitthvað um að vera í stærsta bústaðnum. Þriðjudagurinn var notaður til að jafna mig af hrikalegustu harðsperrum sem ég hef nokkru sinni haft og svo skrapp ég í spa, sem var heldur kostnaðarsamt miðað við hvað nuddpotturinn var kaldur. Á miðvikudaginn fór ég í gönguferð á snjóþrúgum, það var ótrúlega gaman! Seinni partinn ók ég svo snjósleða með félaga minn James sem farþega. Það var ekki síður skemmtilegt. Á fimmtudeginum var farið á hundasleða og svo í sauna og vök. Þá fer maður ofan í vök á stöðuvatni og svo inn í saunu. Afar spes upplifun. Föstudagurinn var svo notaður til að aka heim og ég komst heim kl 4 um nóttina.

Takk fyrir mig Lappland!

Á morgun ætla ég að halda áfram að ferðast, Dublin....here I come!