Thursday, February 26, 2009

Þreyta

Þessi vika hefur verið algjört maraþon. Á mánudaginn sótti ég tíma hjá skoska sellóleikaranum Robert Irving. Hann er afskaplega ólíkur öðrum kennurum sem ég hef hitt. Hann er algjör rokkari, minnir eiginlega á Mick Jagger, fyrir utan sellóið!

Hann talaði næstum ekki neitt um tækni, sem var eiginlega ágætt, því ég hef hugsað óendanlega mikið um tæknileg málefni síðustu vikur. Hann talaði um ímyndunarafl og tilfinningar í tónlist og svo talaði hann mikið um upprunalegan stíl í Bach, sem er mjög nýtt fyrir mér.

Á þriðjudag hitti ég meðleikarann minn og Errki. Í skólanum mínum erum við þrjú saman í tíma en í þetta sinn var ég sú eina sem hafði eitthvað að spila svo ég fékk klukkustund með Errki og Mikael, píanóleikaranum.

Í gær hitti ég Irving aftur svo að ég fékk einkatíma þrjá daga í röð. Það hljómar kannski ekki mikið, en trúið mér, ég var uppgefin í gær! Á mjög þægilegan hátt samt því allar kennslustundirnar gengu vel.

Ég hlakka mikið til að fara til Lapplands, við leggjum af stað kl 20 á laugardagskvöldi, eigum að sofa í rútunni og vakna morguninn eftir í Rovaniemi. Ég veit nú ekki alveg hversu mikið maður mun sofa... en ég verð að reyna. Á dagskrá ferðarinnar er sjósauna (þá fer maður í gegnum vök ofan í sjóinn og svo í sauna!), hundasleði, vélsleði og eitthvað af partýum eins og búast mátti við :)

Moi moi

Hildur

Sunday, February 22, 2009

Vetrarfríinu lokið

Já í dag kláraðist vetrarfríið.

Ég var nú ekkert allt of dugleg. Eins gott að ég bæti það upp í vikunni! Ég geri þetta stundum...slugsa oggulítið og æfi svo eins og brjálæðingur til að vinna upp samviskubitið. Hef alltaf verið tarnamanneskja. Svona er þetta þegar allir vilja alltaf vera að halda teiti!

Ekki það að ég hafi ekki gert neitt af viti. En nú skal í lófana spýtt! Þessa helgi hýstum við ungan Þjóðverja sem, þrátt fyrir að hafa aðeins búið í eitt ár á Íslandi, talar afskaplega vel hið ástkæra ylhýra. Það var algjör snilld að hitta íslenskumælandi mann, því hér er a.m.k. tvennt af öllu nema Íslendingum, ég er sem sagt bara ein. Og eins og alltaf þá nota menn gjarnan móðurmálið við landa sína (t.a.m. frönsku, tékknesku, spænsku, rússnesku o.sv.fr.) og við það einangrast ég af og til.
En maður er nú með sterkan skráp! Ég er ekki víkingur fyrir ekki neitt :)

Framundan er vikuferð til Lapplands, sem verður notuð til að ganga á skíðum og taka myndir. Þess vegna þyrfti ég helst að æfa 9 tíma á dag þessa vikuna...

En ég get það nú varla! En reyni mitt besta...

Þar til næst

Saturday, February 14, 2009

Æfingar

Það er sem sagt ekkert sérlega merkilegt að frétta nema að ég eignast sífellt fleiri vini hérna í Kuunsilta (fyrir þá sem ekki vita þá er það háskólagarður í úthverfi Turku þar sem nemum af erlendum uppruna er hrúgað saman, þeim yfirleitt til mikillar ánægju!!).

Ég er byrjuð í vetrarfríi sem stendur yfir í eina viku og verður notað aðallega til æfinga en einnig til að blanda geði, en ekki til að renna sér á skíðum eins og gert er ráð fyrir. Þetta er nefninlega skíðafríið!

Skólinn minn, Turun Ammatikorkeakoulu, á reyndar von á merkum gesti núna strax eftir vetrafrí. Hann heitir Robert Irving og er sellóleikari frá Glasgow. Ég á að mæta í tíma til hans og spila eitthvað fallegt og skemmtilegt. Þá er bara að krossleggja fingur og vona að hann sé ekki einn þeirra sem lagði ævisparnaðinn og skírnarpeninga barna sinna inn á IceSave reikning :)

Svo verð ég að spýta í lófana og halda áfram að æfa mig í að telja á finnsku.

Þar til næst....
Hildur

Thursday, February 5, 2009

Grámygla

Í dag er svolítið grámyglulegur dagur. Ég fer ekki í tíma til Erkki eins og stóð til heldur hitti ég hann á laugardaginn í staðinn. Þess vegna er eiginlega laugardagur í dag, en ekki fimmtudagur. Ég leyfði mér því að sofa dálítið frameftir og núna sit ég með sveittan skalla og læri finnskar raðtölur. Sellóið verður að bíða þar til í kvöld, því að ef maður mætir til æfinga síðar en klukan hálf tíu þá er alls óvíst að það séu einhverjar stofur lausar. Alveg eins og í Tónó í gamla daga! Þar að auki æfi ég mig lang best og mest byrji ég klukkan hálf níu. Eða ef ég byrja klukkan hálf átta á kvöldin. Ég er allavega ekki miðdegistýpa!

En finnskan tekur líka sinn tíma. Svo verð ég víst líka að búa til námsefni fyrir verðandi íslenskunema. Já, ég get ekki á mér setið, ég verð að kenna eitthvað sama hvar ég er :)
Svo er mál með vexti að ég hef tekið undir minn verndarvæng unga konu sem ætlar að koma sem skiptinemi til Íslands og hana langar að kunna undirstöðuatriðin áður en hún heldur utan. Eftir allt sem finnar hafa gert fyrir mig (og það er slatti, þó að sumt hafi tekið ansi langan tíma!) þá finnst mér sjálfsagt að hjálpa þeim á móti.

En einn tveir og þrír!

Finnska!

Saknikoss, Híbí